
Siglingafélagið Knörr !
Siglingafélagið Knörr mun hefja starfsemi sína að nýju hér í Reykjanesbæ á komandi sumri. Starfsemi félagsins snýr aðallega að því að kenna börnum og unglingum siglingar og voru námskeið félagsins alltaf vel sótt. Markmiðið er að dagskrá námskeiðanna sé fjölbreytt, þroskandi og skemmtileg en líka að nemendur læri undirstöðuatriði siglinga á seglskútum. Siglingafélagið Knörr er auk þess opið öllu áhugafólki um siglingar og annað sjósport, hvort sem það er á seglbátum, kayökum eða öðrum bátum.
Á dögunum gekk Reykjanesbær frá kaupum á nýrri aðstöðu fyrir félagið sem stendur við rampinn í smábátahöfninni í Keflavík. Siglingafélagið þakkar Reykjanesbæ og Íþrótta- og tómstundaráði kærlega fyrir að taka vel í beiðni félagsins um kaup á aðstöðu fyrir félagið svo hægt væri að endurvekja starfsemi þess. Vonumst við eftir því að ný aðstaða félagsins við smábátahöfnina verði ævintýramiðstöð við sjóinn þar sem hressum og kjörkuðum krökkum í Reykjanesbæ gefst kostur á að finna kröftum sínum og ævintýraþrá farveg á námskeiðum félagsins. Starfsemi siglingafélagsins verður því flott viðbót við öflugt íþrótta- og tómstundastarf bæjarins.
Nánari auglýsingar munu birtast á fésbókarsíðunni hér að neðan.
https://www.facebook.com/KnorrSailing